Innlent

Nýtt fréttasett RÚV kostaði 10 milljónir - skjáirnir 15 milljónir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Páll Magnússon útvarpsstjóri og kennimörk miðla RÚV
Páll Magnússon útvarpsstjóri og kennimörk miðla RÚV
Útlagður kostnaður við nýtt fréttasett hjá sjónvarpsfréttastofu RÚV, nýja fréttagrafík, breytta framsetningu veðurfregna, og annað þessu tengt, var 9,8 milljónir króna.

Bakgrunnsskjáirnir þrír sem notaðir eru í fréttasettinu voru keyptir fyrir rúmu ári. Þeir eru því ekki viðbótarkostnaður við nýtt fréttasett nú en hver skjár kostaði á sínum tíma tæplega 5 milljónir króna. Skjáirnir þrír kostuðu því saman alls tæpar 15 milljónir króna þegar þeir voru keyptir á síðasta ári. Skjáirnir eru hafa verið og verða áfram notaðir í leikmyndir og annað, auk þess að vera notaðir í fréttunum.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra RÚV, við fyrirspurn blaðamanns Vísis um kostnað við nýja fréttasettið og aðrar útlitsbreytingar.

Þar segir að fréttasettið hjá RÚV var síðast endurnýjað árið 2005, og gamla settið því notað í rúmlega fimm ár.

Hins vegar hefur kennimark Sjónvarpsins, sem Gísli B. Björnsson hannaði fyrir 45 árum, gengið í endurnýjun lífdaga.

„Kennimörk RÚV, Sjónvarpsins, Rásar 1 og Rásar 2 hafa nú í fyrsta skipti verið sameinuð undir einu sterku auðkenni, hinu góðkunna merki Sjónvarpsins í uppfærðri útgáfu. Eitt merki hefur þann kost að vera sameiningartákn allrar starfsemi fyrirtækisins og skerpa ásýnd þess en merkin voru fjögur áður. Um leið og nýtt auðkenni var tekið upp voru gerðar breytingar á ásýnd og útliti miðla RÚV og voru þær unnar samhliða merkisbreytingunni," segir í svari Bjarna.

Útlagður kostnaður við almennar útlitsbreytingar hjá RÚV og miðlum þess, það er Rás 1, Rás 2, Sjónvarpsins og ruv.is nam 4 milljónum króna.

Meðal þess sem er inni í þessum kostnaði er nýtt vefútlit sem er væntanlegt innan tíðar, og sviðsmynd fyrir fréttir. Þá hefur stillimynd sjónvarpsins horfið og í staðinn komnar skjámyndir með dagskrárkynningum, fréttum, myndum úr vefmyndavélum Mílu, frá útsendingum í hljóðstofu, og fleira.

Heildarkostnaður við breytingarnar nú er því tæpar 14 milljónir króna, en ef skjáirnir sem keyptir voru á síðasta ári er tekinn með er kostnaðurinn orðinn tæpar 30 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×