Innlent

Óvíst að lægra mat hafi mikil áhrif

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Vandalaust er að skýra stöðu Icesave-deilunnar erlendis og skilningur er ytra á þeirri afstöðu þjóðarinnar að ekki hafi verið rétt að semja um skuldbindingu á meðan hún væri óljós, að sögn Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Í þrotabúi bankans eru eignir og Ísland í fínum málum sem land. Við erum að ná betri árangri en flest önnur lönd við að komast út úr kreppunni. Og umgjörðin sem við höfum sett utan um skuldaúrvinnslu vekur athygli og er talin til eftirbreytni í öðrum löndum,“ segir Árni Páll. Hann kveður áherslu hafa verið lagða á það í viðræðum við önnur lönd og greiningarfyrirtæki að ekki sé um neinar vanefndir af hálfu Íslands að ræða þegar kemur að Icesave. „Ísland hefur bæði vilja og getu til að standa við sínar skuldbindingar. Þær þurfa bara að vera á hreinu.“

Þá segir Árni Páll engar þær aðstæður hafa komið upp eftir Icesave-atkvæðagreiðsluna sem réttlætt gætu lægra lánshæfismat, titrings á vettvangi skuldatrygginga hafi ekki orðið vart, kjaraviðræður haldi áfram og ekki sé merkjanlegur minni áhugi á erlendri fjárfestingu á Íslandi. „Það var meira að segja bein erlend fjárfesting í íslenskum banka á mánudeginum eftir atkvæðagreiðsluna.“

Þá bendir Árni Páll á að hvað fjárfesta varði muni ekki miklu á núverandi einkunn með neikvæðum horfum og lægri einkunn þar sem horfur væru stöðugar. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×