Innlent

Konur haldi áfram að fara í leghálskrabbameinsskoðun

Byrjað verður að bólusetja íslenskar stúlkur í haust við HPV-sýkingum sem geta leitt til leghálskrabbameins. Sóttvarnarlæknir segir þó mikilvægt að konur fylgi áfram þeim tilmælum sem nú eru í gildi um krabbameinsleit.

Gengið hefur verið frá samningi um kaup á bóluefni gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini. Í fyrstu átti einungis að bólusetja stúlkur á tólfta ári en þar sem efnið fékkst á hagstæðu verði verður einnig hægt að koma 13 ára stúlkum að í bólusetningu þennan veturinn. Í framhaldi af því verða 12 ára stúlkur bólusettar árlega í skólum landsins.

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir bólusetningarnar koma í veg fyrir forstigsbreytingar sem getur leitt til krabbameins síðar. „Við höfum alla ástæðu til þess að ætla það að þetta komi í veg fyrir krabbamein í framtíðinni í velflestum tilfellum. Þó er að merkja að það er þarna 20-30% af veirunni sem bóluefnið tekur ekki til og þess vegna er mjög mikilvægt að konur haldi eftir sem áður áfram að fara í leghálskrabbameinsskoðun."

Hvenær má vænta að árangurinn sjáist? „Þetta er langtímafjárfesting og við munum ekki sjá árangurinn fyrr en eftir 20 til 30 ár hvað krabbameinið varðar en forstigsbreytingarnar mun fyrr."

Fræðsluefni til stúlkna og foreldra þeirra verður dreift í byrjun skólaárs 2011.




Tengdar fréttir

12 ára stúlkur bólusettar gegn leghálskrabbameini

Byrjað verður að bólusetja íslenskar stúlkur í haust við HPV-sýkingum sem geta leitt til leghálskrabbameins. Landlæknisembættið hefur gert kaupsamning við lyfjafyrirtækið GSK um kaup á bóluefni gegn leghálskrabbameini og HPV-sýkingum. Um er að ræða bóluefnið Cervarix sem notað verður í almennum bólusetningum hjá stúlkum hér á landi. Bólusetningin hefst í september næstkomandi en á komendi vetri verða tveir árgangar stúlkna bólusettur, þær sem fæddar eru 1998 og 1999. Í framhaldi af því verða 12 ára stúlkur bólusettar árlega. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir um 60-70% leghálskrabbameins og um 40% alvarlega forstigsbreytinga þess Hér á landi greinast árlega um 17 konur með leghálskrabbamein og um 300 konur með alvarlegar forstigsbreytingar. Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að full bólusetning felur í sér þrjár sprautur og er áætlað að bólusett verði í skólum landsins en framkvæmd bólusetningarinnar er á ábyrgð heilsugæslunnar. Fræðsluefni til stúlkna og foreldra þeirra verður dreift í byrjun skólaárs 2011. Þar sem leghálskrabbamein myndast um 20-30 árum eftir HPV sýkingu þá mun líða langur tími þar til að árangur bólusetningarinnar kemur í ljós. Því er mikilvægt að konur fylgi áfram þeim tilmælum sem nú eru í gildi um krabbameinsleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×