Innlent

Ekkert hræðir ferðamenn meira en að komast ekki aftur heim

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Mynd úr safni
Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustunni hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna yfirvinnubanns flugmanna Icelandair en félagið hefur nú aflýst fimmtán flugum. Framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar segir ekkert hræða ferðamenn meira en tilhugsunin að komast ekki aftur heim. Viðræðum verður haldið áfram í Karphúsinu í dag.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til sáttarfundar með flugmönnum Icelandair og samningamönnum félagsins, klukkan hálf tvö í dag, eftir árangurslausan samningafund á laugardag. Þrjú flug, sem fara áttu héðan til Gautaborgar, Kaupmannahafnar og Parísar í nótt, voru felld niður vegna yfirvinnubanns flugmanna.

Þá hefur flug félagsins til og frá Seattle í dag verið fellt niður. Flugstjóri vélarinnar flaug annarri vél frá Evrópu í gærkvöld en lenti á eftir áætlun vegna flugumferðar. Hann átti að lenda skömmu fyrir miðnætti en lenti sex mínútur yfir. Samkvæmt samningum má flugstjóri ekki fljúga áætlunarflug tvisvar sama dag og því munaði ekki nema sex mínútum að hann fengi að fljúga til Seattle í dag. Enginn kemst í hans stað vegna yfirvinnubannsins.

Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar segir aðgerðir flugmanna hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna.

„Við erum að fá fréttir héðan og þaðan af hópum sem eru hættir við að koma til Íslands," segir hún og tekur fram að aðgerðirnar fæli ferðamenn frá Íslandi. „Það er farið að hægja á bókunum. Það er ekkert sem hræðir fólk jafn mikið eins og að komast ekki aftur heim," segir Erna.

Þá segir hún ferðamenn vel geta farið til annarra landa ef flug þeirra til Íslands fellur niður. Ferðaþjónustan megi ekki við því.

„Það er nóg af öðrum stöðum til að fara til, við erum í gríðarlegri samkeppni við önnur lönd. Það er auðveldasti hlutur í heimi fyrir þessa hópa að hætta við að koma hingað og fara eitthvað annað, segir Erna að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×