Innlent

Ófáir axlapúðar á Akureyri

Skúli Gautason tekur ofan fyrir gestum á Akureyri.
Skúli Gautason tekur ofan fyrir gestum á Akureyri.
Mikill mannfjöldi var í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu. Á Ráðhústorgi var fjölbreytt dagskrá þar sem fjöldi listamanna kom fram. Að öðrum ólöstuðum voru það Dagur Sigurðsson og hljómsveit hans sem stálu senunni, að mati Skúla Gautasonar framkvæmdastjóra hátíðarinnar.

Skemmtanir fóru fram á hinum ýmsu skemmtistöðum bæjarins. Mikill fjöldi var í Sjallanum sem og á Dynheimaballi sem var haldið á Oddvitanum. Skúli segir í tilkynningu að þar hafi ríkt nostalgísk stemming frá því á diskóárunum og að sjá hafi mátt ófáa axlapúða og satínskyrtur.

Í dag er dagskrá við Iðnaðar- og Mótorhjólasöfnin sem hefst á hádegi, á Ráðhústorgi verður markaður eftir hádegi og söngvakeppni barna. Í kvöld verða Sparitónleikar á flötinni við Samkomuhúsið. Þeim lýkur með flugeldasýningu sem verður skotið upp utan af sjó. Þetta er í fyrsta skipti sem það er reynt, að sögn Skúla.

„Þrátt fyrir þennan mikla fjölda og mikið stuð fór nóttin afar vel fram. Engin útköll voru hjá lögreglu eða slökkviliði og hefur það ekki gerst áður á laugardagskvöldi um verslunarmannahelgi. Ekki er vitað um nein eignaspjöll, engin fíkniefnamál eða nauðganir.  Gestir hátíðarinnar hafa verið til fyrirmyndar í hvívetna og taka aðstandendur hátíðarinnar ofan fyrir þeim,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×