Innlent

Velferðarráðherra ýtti mottumars úr vör

Guðbjartur Hannesson skartaði forláta mottu, þótt um gerviskegg hafi reyndar verið að ræða.
Guðbjartur Hannesson skartaði forláta mottu, þótt um gerviskegg hafi reyndar verið að ræða.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ýtti Mottumars úr vör við hátíðlega athöfn á skautasvellinu í Laugardal í dag. Mottumars er yfirskrift átaks Krabbameinsfélags Íslands um karlmenn og krabbamein en átakið var haldið í fyrra í fyrsta sinn og þótti takast með eindæmum vel. Átakið hófst í dag með því að úrvalslið lögreglu- og slökkviliðsmanna öttu kappi í íshokkí og fóru leikar þannig að lögreglumenn unnu leikinn.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri fór fyrir sínu liði sem sigraði eftir æsispennandi leik.
Í átakinu eru karlmenn hvattir til að safna yfirvaraskeggi til marks um samstöðu í baráttunni, vekja athygli á krabbameinum karlmanna og um leið safna áheitum.

Bæði einstaklingar og lið geta skráð sig til þáttöku í mottusamkeppninni á áheita- og áskorendasíðunni mottumars.is en vefurinn verður formlega opnaður fyrir skráningar á morgun þann 1. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×