Innlent

7,6% atvinnuleysi árið 2010

Atvinnuþátttaka var 81% á síðasta ári
Atvinnuþátttaka var 81% á síðasta ári Mynd: GVA
Atvinnuleysi á árinu 2010 var að meðaltali 7,6%. Á árinu voru 180.900 á vinnumarkaði. Af þeim voru 167.300 starfandi en 13.700 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 81% og hlutfall starfandi 74,9%.

Fjöldi atvinnulausra stendur nánast í stað frá árinu 2009, en frá árinu 2008 hefur atvinnulausum fjölgað um 8.200. Sama má segja um starfandi, fjöldi þeirra hefur lítið breyst frá árinu 2009 miðað við fækkun upp á 11.300 manns frá árinu 2008.

Síðan reglulegar mælingar Hagstofunnar hófust árið 1991 hefur hlutfall starfandi aldrei mælst minna og atvinnuleysi meira en árið 2010.

Árið 2010 var atvinnuleysi að meðaltali 9,5% í Reykjavík, 7,5% í nágrenni Reykjavíkur og 5,5% utan höfuðborgarsvæðisins.



Mynd Hagstofa.is
Langtímaatvinnulausum fjölgar

Af þeim sem voru atvinnulausir árið 2010 voru að jafnaði 2.800 manns búnir að vera atvinnulausir í 1-2 mánuði eða 20,8% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu 3.700 manns verið atvinnulausir í 1-2 mánuði árið 2009 eða 28,3% atvinnulausra.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Árið 2010 höfðu um 2.800 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 20,3% atvinnulausra. Árið 2009 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 900 manns eða 6,8% atvinnulausra.

Heildarvinnutími 39,2 tímar. á viku

Árið 2010 var heildarvinnutími þeirra sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni að meðaltali 39,2 klst., 44,7 klst. hjá þeim sem voru í fullu starfi og 23,3 klst. hjá þeim sem voru í hlutastarfi. Heildarvinnutími minnkaði lítillega milli ára en var 39,5 árið 2009.

Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkaðinn árin 1991 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×