Innlent

Árlegum brekkusöng Árna lauk með flugeldasýningu

Mynd/Óskar P. Friðriksson
Talið er að um 14 þúsund manns hafi verið samankomnir á árlegum brekkusöng Árna Johnsen í Herjólfsdal sem lauk rétt eftir miðnætti með glæsilegri flugeldasýningu. Varað hafði verið við stormi í nótt en veður var betra en ráð hafði verið gert fyrir, og leituðu fáir skjóls í íþróttahúsi bæjarins sem var opið þjóðhátíðargestum.

Talsverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og í nótt. Eitthvað var um pústra en engar líkamsárásir hafa verið kærðar til lögreglu eftir nóttina. Nokkur fíkniefnamál komu inn á borð lögreglu.

Meintur byssumaður handtekinn

Um tvöleytið í nótt barst tilkynning um að vopnaður maður ætlaði að vinna sér skaða um borð í bát í höfninni. Sérsveitarmenn á vegum Ríkislögreglustjóra sem voru við hefðbundinn lögreglustörf um helgina í Eyjum fóru á vettvang og tryggðu nánasta umhverfi áður en þeir handtóku manninn sem er 24 ára.

Engin byssa fannst um borð. Maðurinn gisti í fangageymslu í nótt. Hann hefur áður komið við sögu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Handtekinn þrisvar sinnum um helgina

Þá handtóku lögreglumenn karlmann í nótt sem réðst á starfsmann skemmtistaðar í bænum. Á honum fundust um 10 grömm af hreinu amfetamíni. Þetta var í þriðja sinn sem lögregla hafði afskipti af manninum um helgina og í öll skiptin fundust fíkniefni á honum. Maðurinn var fyrst stöðvaður við komuna til Eyja á föstudaginn og þá handtóku lögreglumann hann einnig á laugardaginn. Að sögn lögreglu er maðurinn þekktur afbrotamaður af höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×