Innlent

Fjárdráttur á annan tug milljóna

Grunur leikur á að fjárdráttarmálið sem upp er komið í Norðurlandaráði snúist um á annan tug milljóna króna. Endurskoðendur í Finnlandi fara nú yfir bókhald síðustu tveggja ára en málið hefur verið kært til Efnahagsbrotadeildar.

Innan Norðurlandaráðs er starfræktur svokallaður Íhaldshópur sem er í raun bara samstarfsvettvangur hægri manna á Norðurlöndum. Undanfarin ár hefur starfsmaður hópsins verið íslenskur, með aðstöðu í Valhöll. Hann lét nýlega af störfum samkvæmt áætlun þar sem Finnar áttu að taka við forystu.

Þegar þessi skipti fóru fram vöknuðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu í fjármálum hópsins. Fyrirspurnir frá finnlandi urðu til þess að bókhaldið var skoðað og þá kom ýmislegt í ljós sem bendir til þess að íslenski starfsmaðurinn hafi dregið að sér miklar fjárhæðir.

Íslenski starfsmaðurinn var beðinn um skýringar á grunsamlegum millifærslum en þær voru ekki gefnar. Þá var ákveðið að kæra málið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

„Rannsókn fer nú fram og þar til henni lýkur get ég í raun ekki tjáð mig um málið nema að við höfum vissar grunsemdir sem beinast í tiltekna átt," segir Maria Elena Cowell, formaður Íhaldshóp Norðurlandaráðs.

Ekki er vitað með vissu um hversu háar fjárhæðir er að ræða en nokkrir sem

til málsins þekkja segja á annan tug milljóna króna.

Peningarnir munu að mestu hafa farið í persónulega neyslu starfsmannsins sem hefur samkvæmt kunningum hans lifað hátt undanfarin ár og ferðast víða.

Endurskoðendur á vegum Norðurlandaráðs skoða nú bókhald íhaldshópinn aftur til ársins 2009.

Vinir mannsins og samstarfsfélagar í Valhöll þar sem hann hafði starfsaðstöðu eru slegnir en fréttir af málinu komu þeim í opna skjöldu.

„Þetta er áfall fyrir okkur öll sem höfum starfað með viðkomandi, það eru allir mjög niðurdregnir út af þessu," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×