Innlent

Ólína og hundurinn hífð í þyrluna

Ólína og fleiri þátttakendur í æfingunni með leitarhunda sína. Mynd/Ólína Þorvarðardóttir
Ólína og fleiri þátttakendur í æfingunni með leitarhunda sína. Mynd/Ólína Þorvarðardóttir
„Ég var hræddust um hundinn, svo brá mér svolítið þegar ég sá myndirnar eftir á. En þetta gekk allt vel," segir Ólína Þorvarðardóttir þingkona, sem var í vikunni í fyrsta sinn hífð upp í þyrlu ásamt áhöfn TF-LÍF. Skutull, hundur Ólínu, var með í för.

Þyrluæfingin var á Arnarnesi við mynni Skutulsfjarðar og var tilgangur hennar að þjálfa útkallshunda á Vestfjörðum í að vinna við þessar erfiðu aðstæður. Verið var að leggja lokahönd á þjálfun Skutuls og fleiri hunda hjá Björgunarhundasveit Íslands. Ólína er sjálf björgunarsveitarkona til margra ára.

„Það getur verið mjög erfitt fyrir hunda að fara inn í hávaðasama þyrlu og halda ró sinni þegar þeir eru hífðir upp," segir Ólína. „Það má ekki koma niður á getu þeirra í því að vinna verk sín og finna týnda menn í framhaldinu."

Fyrsta þyrluæfing Skutuls gekk áfallalaust. Hann byrjaði þó að brjótast um í sigvestinu rétt áður en hann og eigandi hans voru hífð upp í þyrluna. Ólína segir eðlishvöt hundsins þá hafa tekið við þar sem hann róaðist um leið og þau tókust á loft.

Björgunarhundasveitin er sérsveit innan Landsbjargar og starfar á landsvísu. Á fjórða tug hunda eru í sveitinni, þar af um tuttugu á útkallslista. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×