Innlent

Stjórnmálaþátttaka kvenna einna mest á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það eru 26 konur kjörnar á Alþingi. Mynd/ Vilhelm
Það eru 26 konur kjörnar á Alþingi. Mynd/ Vilhelm
Rúanda er eina ríkið í heiminum þar sem konur eru í meirihluta á þjóðþinginu. Á Íslandi og í Suður-Afríku vantar lítið upp á að jafn margar konur og karlmenn sitji á þingi. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Independent. Blaðið hefur gert úttekt á stöðu kvenna á þjóðkjörnum þingum í heiminum í tilefni þess að alþjóðlegur baráttudagur kvenna er á þriðjudaginn.

Í úttektinni kemur fram að Svíþjóð, Finnland, Noregur og Ísland eru öll á lista yfir þau tíu ríki þar sem hlutur kynjanna í stjórnmálum er hvað jafnastur. Lítið vantar upp á að Danmörk komist inn á listann. „Skandínavísku ríkin hafa verið að vinna að þessu í áratugi. Þau ákváðu fyrir löngu að þetta væri mikilvægt og ákváðu að gera eitthvað í málunum," segir Nan Sloane, framkvæmdastjóri Stofnunar kvenna í stjórnmálum, sem starfrækt er í Bretlandi.

Eins og áður var greint frá er þingið í Rúanda eina þjóðþingið þar sem konur eru í meirihluta. Þetta á þó einungis við um neðri deildina. Þar er 56% kjörinna fulltrúa konur. Í efri deildinni eru 35% kjörinna fulltrúa konur. Hlutföllin eru svo enn óhagstæðari konum í ríkisstjórninni, en sex af ráðherrunum í 23ja manna ríkisstjórn eru konur.

Konur eru um 41% kjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×