Innlent

Forseti Íslands aftur kominn í sviðsljós heimsfréttanna

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands er aftur komin í sviðsljós heimsfréttanna í framhaldi af því að hann ákvað að vísa nýjasta Icesave samningnum til þjóðaratkvæðis.

Allar helstu fréttastofur á vesturlöndum ásamt vefmiðlum greina frá ákvörðun forsetans í málinu. Þar er jafnframt rifjað upp að þetta sé í annað sinn sem forsetinn vísi málinu til íslensku þjóðarinnar.

Breska blaðið Daily Telegraph leyfir blogg við fréttir sínar á vefnum. Þar er nú í gangi athyglisverður bloggstraumur við fréttina um að forsetinn hafi vísað Icesave til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bloggararnir skiptast nokkuð jafnt í hópa með og á móti ákvörðun forsetans. Þeir sem eru á móti segja m.a. að breskir og hollenskir skattpeningar hafi þegar farið í að greiða Icesave skuldir og þá eigi að endurgreiða.

Þeir sem eru meðmæltir forsetanum segja m.a. að íslenskur almenningur eigi ekki að greiða skuldir bankabófa. Einn orðar þetta sem svo að íslenskur almenningur beri ekki ábyrgð á Icesave frekar en breskur almenningur á lestarráni Ronnie Biggs og félaga á síðustu öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×