Innlent

Styrkja soltin börn í Sómalíu

Um tólf milljónir Sómala eru taldar í lífshættu vegna þurrkanna sem hafa geisað þar undanfarið.
Um tólf milljónir Sómala eru taldar í lífshættu vegna þurrkanna sem hafa geisað þar undanfarið. Nordicphotos/afp
Efnilegustu ungu skákmenn landsins munu tefla við gesti og gangandi á skákmaraþoni í Ráðhúsi Reykjavíkur um næstu helgi. Mótherjar ungmennanna munu geta borgað upphæð að eigin vali sem rennur beint í söfnun Rauða kross Íslands vegna hungursneyðarinnar í Sómalíu og öðrum löndum Austur-Afríku.

Fyrir söfnunarféð verður keypt vítamínbætt hnetusmjör, sem er notað til að hjúkra alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis.

Á hverjum degi dreifir Rauði krossinn mat til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður-Sómalíu og 5.500 börn njóta umönnunar í fjörutíu næringarmiðstöðvum Rauða krossins og Rauða hálfmánans víðs vegar um landið. Auk þess rekur Rauði krossinn tuttugu heilsugæslustöðvar í Sómalíu og vinnur að vatnsveituverkefnum á þurrkasvæðum.

Skákakademía Reykjavíkur og Skáksamband Íslands standa fyrir maraþonskákinni, sem hefst klukkan tíu á laugardag og stendur til klukkan sex síðdegis. Skákin heldur svo áfram á sama tíma daginn eftir.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×