Innlent

Skipstjórinn viðurkenndi mistök

Mynd/AFP
Mynd/AFP
Skipstjórinn á Goðafossi hefur viðurkennt við yfirheyrslur hjá norsku lögreglunni að hafa tekið ranga stefnu þegar skipið strandaði, að sögn fréttavefs norska ríkissjónvarpsins. Fleiri úr áhöfn skipsins hafa verið yfirheyrðir.

Haft er eftir Ivar O. Prestbakken, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í Fredrikstad, á vef norska ríkisútvarpsins, að skipstjóri Goðafoss hafi sagt við yfirheyrslu að hann hafi tekið ranga stefnu. Skipstjórinn hafi verið einn í brúnni þegar skipið strandaði. Búið er að staðfesta að skipstjórinn var hvorki undir áhrifum áfengis né hafði hann sofnað við stýrið.

„Hann hefur siglt hér í mörg. Hann er reyndur sjómaður,“ er haft eftir Prestbakken.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa, vill ekki tjá sig um umfjöllun norsku fjölmiðlanna en Eimskip sendir frá sér yfirlýsingu um málið von bráðar.

Norskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Goðafoss hafi verið á rúmlega þrettán mílna ferð við strandið, og aukið ferðina mjög eftir að leiðsögumaður fór frá borði skömmu áður. Eins hafa norsk siglingamálayfirvöld látið að því liggja að leiðsögumaðurinn hafi farið of snemma frá borði og endurskoða þurfi vinnureglur.

Ólafur segir að norska lögreglan hafi farið um borð í Goðafoss í gær og yfirheyrt skipstjórann. Slíkt er alltaf gert við fyrsta tækifæri og meðal annars gengið úr skugga um að stjórnendur skipsins hafi ekki verið undir áhrifum áfengis.

Goðafoss sat í gær enn fastur við Fredrikstad í Oslóarfirði. Ekkert hefur verið ákveðið hvenær reynt verður að ná skipinu af strandstað.

- sv, shá / sjá síðu 8




Fleiri fréttir

Sjá meira


×