Innlent

Í varðhald vegna nauðgunar á skemmistað

Lögreglan handtók hinn grunaða á sunnudag.
Lögreglan handtók hinn grunaða á sunnudag.

Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag vegna gruns um að hann hefði nauðgað konu í Reykjavík um nýliðna helgi. Maðurinn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins á skemmtistað í Reykjavík. Eftir því sem næst verður komist var konan, sem einnig er á fimmtugsaldri, mjög ölvuð á staðnum. Maðurinn var inni á salerni skemmtistaðarins á sama tíma og hún og beitti hana kynferðislegu ofbeldi. Þau þekktust ekki.

Konan fór á neyðarmóttöku á Landspítala fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis. Síðan kærði hún atvikið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með rannsókn málsins.

Maðurinn var handtekinn í fyrradag eftir að rætt hafði verið við vitni og upptökur úr öryggismyndavélum höfðu verið skoðaðar. Hann hefur neitað sök, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Umræddur maður er erlendur ríkisborgari en hefur unnið hér á landi um skeið. Hann hefur ekki komið við sögu hjá lögreglu áður.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×