Innlent

Barði föðurinn fyrir framan börnin

Skotárásin Einn byssumanna leiddur fyrir dómara.
Skotárásin Einn byssumanna leiddur fyrir dómara.

Fórnarlamb handrukkara, sem varð fyrir byssuárás ásamt fjölskyldu sinni í Bústaðahverfi á aðfangadag, kveðst hafa orðið fyrir síendurteknu ónæði af hendi rukkaranna.

Maðurinn hefur borið fyrir lögreglu að hann hafi um nokkurt skeið þurft að þola hótanir og líkamsárásir frá nafngreindum manni og félögum hans. Þessi maður hafi margsinnis reynt að rukka hann vegna fíkniefnaviðskipta og segir fórnarlambið atgang hans hafa verið mjög ógnandi og hættulegan.

Heimilisfaðirinn segir að maðurinn hafi heimsótt sig 21. desember. Þegar hann hafi farið til dyra hafi rukkarinn barið sig fyrir framan börn sín. Fyrir atlöguna á aðfangadag hafi þessir menn komið að heimilinu að kvöldi Þorláksmessu og verið með mikinn fyrirgang. Á aðfangadag jóla hafi menn sem hann telji vafalaust vera á vegum þessa sama manns, þeir sömu og hafi komið á Þorláksmessu, komið og bankað á dyr. Hann hafi þá verið búinn að koma konu sinni og börnum út um bakdyr og til nágranna sinna. Þegar þeir hafi bankað hafi hann stuggað þeim frá með því að stinga járnröri út um bréfalúgu. Síðan hafi hann farið út um bakdyr og til nágranna sinna. Þá hafi mennirnir greinilega skotið í útihurðina og inn um hana. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×