Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir árás með krikketkylfu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Austurlands dæmdi í dag karlmann á Fáskrúðsfirði í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á mann á Egilsstöðum í júlí í fyrra og lamið hann í höfuð með krikketkylfu og kýlt hann í andlit og líkama. Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut fimm sentimetra langt sár á vinstra gagnauga og sár á höfði, auk frekari meiðsl.

Árásarþolinn sagði fyrir dómi að hann hafi verið staddur á heimili sínu þegar árásarmaðurinn mætti þangað með öðrum manni. Þeir hafi ráðist að sér og annar þeirra hafi rifið í sig en hann sjálfur tekið á móti. Átökin hafi borist út í garð og hafi báðir árásarmennirnir beitt sér gegn honum einum. Atlögunni hafi ekki linnt fyrr en faðir árásarþolans hafi skorist í leikinn. Þeim hafi tekist að forða sér frá árásarmönnunum pabbinn kallað til lögreglu.

Hinn dæmdi hefur áður hlotið skilorðsbundinn dóm en hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2009 fyrir manndráp af gáleysi, hraðakstur, ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×