Innlent

REI-athugun tafin í tvö ár

Umboðsmaður Alþingis sendi borgarstjórn Reykja­víkur bréf um áramót þar sem hann krefst svara við því „hvort teknar hafi verið einhverjar ákvarðanir eða gripið til einhverra viðbragða sem eru til þess fallin að koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í [REI-málinu] endurtaki sig.“ Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, tók REI-málið til athugunar haustið 2007, eftir að harðvítug átök höfðu staðið um það í borgarstjórn. Málið snerist um samruna félagsins Reykjavík Energy Invest (REI), dótturfélags Orkuveitunnar (OR), við Geysi Green Energy, sem var í meirihlutaeigu FL Group og Glitnis, og leiddi til mesta upplausnarástands í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur. Tryggvi sendi í tvígang út spurningalista vegna málsins; tólf spurningar til allra eigenda OR í október 2007 og sex spurningar til borgarstjórnar í lok febrúar 2008 sem að stórum hluta snerust um aðkomu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þá borgarstjóra, að málinu. Spurningunum var svarað, meðal annars með þeim orðum að til stæði að endurskoða regluverkið til fyrirbyggja að svona nokkuð gæti endurtekið sig. Í samræmi við starfsvenju ákvað hann að bíða með að ljúka athuguninni til að gefa stjórnvöldum færi á að ráðast í nauðsynlegar breytingar. Í desember 2008 sendi hann svo enn bréf á borgarstjórn og spurðist fyrir um hvað málinu liði. Enn virtist sú staða vera uppi að vafi léki á um hvort OR starfaði á sviði einkaréttar eða opinberrar stjórnsýslu. Ekkert hefði því breyst. Því bréfi var svarað 5. mars 2009, efnislega á þann veg að vinnan stæði enn yfir. „Nú eru liðnir tæplega 22 mánuðir frá bréfi borgarstjóra Reykjavíkurborgar til mín,“ skrifar Tryggvi í nýjasta bréfi sínu. Á fundi sem hann átti af öðru tilefni með borgarráði 18. nóvember hafi aftur komið fram að vinnan stæði enn yfir. Nú vill umboðsmaður sem áður segir vita hvort eitthvað hafi gerst í málinu á þessum 22 mánuðum. Hann óskar eftir að svar við því berist fyrir 2. febrúar. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×