Innlent

Yfirmaður hjá ISAVIA í leyfi vegna kynferðislegrar áreitni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leifsstöð.
Leifsstöð.
Starfsmaður ISAVIA sem var fundinn sekur um kynferðislega áreitni gagnvart samstarfskonu sinni er kominn í leyfi.

Samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA var um að ræða sameiginlega ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins og hans. Stjórnendur ISAVIA íhuga nú hvort málinu verði áfrýjað, eða hver næstu skref í málinu eiga að vera. Maðurinn verður í leyfi þangað til.

ISAVIA var dæmt í Héraðsdómi Reykjaness í gær til að greiða konu miskabætur vegna kynferðislegrar áreitni. Upphaf málsins má rekja til þess að konan fór með tveimur yfirmönnum, framkvæmdastjóra sinnar deildar og svo yfireftirlitsmanni með öryggisatriðum fyrirtækisins, í vinnuferð í sumarbústað í Grímsnesi. Henni var tjáð að í ferðinni ætti að ræða um breytingar á starfi hennar.

Um kvöldið reyndu mennirnir að fá konuna með sér ofan í heitan pott og tók konan þá eftir því að annar mannana var nakinn. Hún lokaði sig inn í herbergi. Síðar um kvöldið ruddist framkvæmdastjórinn inn í herbergið og bað konuna um að taka í hönd sina. Ekki voru gerðar athugasemdir við hegðun hins mannsins, sem fór íklæddur skýlu í pottinn.

Rétt er að taka fram að ISAVIA var ekki starfandi þegar dómurinn átti sér stað, heldur vann fólkið hjá Keflavíkurflugvelli, sem varð síðar að ISAVIA, eftir sameiningu við Flugstoðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×