Innlent

Hlutverk mannréttindaráðs óljóst

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson
Fulltrúar sjálfstæðismanna í borgarráði munu leggja fram fyrirspurn á borgarráðsfundi á morgun um lagalega endurskoðun á hlutverki mannréttindaráðs Reykjavíkur.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir mannréttindaráð ekki hafa stefnumarkandi hlutverk og því síður boðvald yfir öðrum ráðum borgarinnar. Hann vísar þar í þriðju grein samþykktar ráðsins, þar sem segir meðal annars að ráðið sé fagsviðum til samráðs og ráðgjafar um forgangsröðun verkefna á sviði mannréttindamála. Júlíus bendir á að ráðið eigi ekki að taka stefnumótandi ákvarðanir gagnvart öðrum ráðum innan borgarinnar og vísar þá sérstaklega í þá ákvörðun ráðsins um breytingar á samskiptum leik- og grunnskóla við trúfélög og lífskoðanahópa. „Menntaráð hefur ákveðið hlutverk lögum samkvæmt og í mínum huga er það vald algjörlega skýrt. Mannréttindaráð hefur hlutverk samkvæmt samþykktum borgarinnar,“ segir Júlíus. „Við munum óska eftir því að borgarlögmaður fari yfir þessi mál.“

Meirihluti mannréttindaráðs lagði til breytingar á samstarfi skóla og trúfélaga í lok síðasta árs og hefur málið nú fengið umsagnir hjá menntaráði og íþrótta- og tómstundaráði. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að heimsóknum presta í skóla yrði hætt, líkt og heimsóknum barna í kirkju í trúarlegum tilgangi. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×