Innlent

Kjöt merkt með fituinnihaldi

Framleiðendum í Bandaríkjunum verður brátt skylt að merkja kjötvörur með upplýsingum um næringargildi og fituprósentu. Fréttablaðið/Arnþór
Framleiðendum í Bandaríkjunum verður brátt skylt að merkja kjötvörur með upplýsingum um næringargildi og fituprósentu. Fréttablaðið/Arnþór
Í byrjun næsta árs taka gildi í Bandaríkjunum nýjar reglur Matvælaeftirlits Bandaríkjanna (FSIS) sem gera framleiðendum skylt að upplýsa um næringargildi á umbúðum 40 algengustu kjöt- og fuglakjötstegunda í verslunum.

Greint er frá því á vef Landssambands kúabænda (naut.is) að með reglunum eigi að sporna við offitu­faraldri í Bandaríkjunum. Hluti af því sé betri upplýsingagjöf um næringargildi matvöru.

Í tilkynningu FSIS er haft eftir Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna, að sífellt fleiri fjölskyldur þar í landi kalli eftir upplýsingum um næringargildi sem séu auðskiljanlegar og fljótlegt að kynna sér. „Við þurfum að beita öllum ráðum til að hjálpa neytendum að taka upplýstar ákvarðanir með hjálp slíkra merkinga,“ segir hann.

Fram eiga að koma upplýsingar um fjölda kalóría og heildarfituinnihald og skiptingu milli mettaðra og ómettaðra fitusýra.

„Athygli vekur að engar tilraunir verða gerðar til þess að upplýsa neytendur um hormónainnihald kjötsins, en eins og kunnugt er eru hinir umdeildu vaxtarhormónar leyfðir við nautakjötsframleiðslu í Bandaríkjunum,“ segir á vef Landssambands kúabænda.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×