Innlent

Verðmæti fyrirtækjanna haldið leyndu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson varð fyrir vonbrigðum með svörin í gær.
Guðlaugur Þór Þórðarson varð fyrir vonbrigðum með svörin í gær.
Það hefur aldrei gerst í sögunni að ekki hafi verið upplýst um söluverðmæti einkavæddra fyrirtækja, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Guðlaugur er ósáttur við svör sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gaf á Alþingi gær um söluandvirði eignarhaldsfélagsins Vestia sem var á dögunum selt frá Landsbankanum yfir til Framtakssjóðs Íslands.

„Ég held að það hafi komið öllum á óvart þegar svar kom frá hæstvirtum fjármálaráðherra í gær þegar spurt var um kaupverð þeirra félaga sem voru seld úr Vestia sem var eignarhaldsfélag Landsbankans yfir til Framtakssjóðins. Svarið var einfaldlega það að það á ekki að upplýsa um söluverðið," sagði Guðlaugur.

Guðlaugur innti Magnús Orra Schram, formann viðskiptanefndar, eftir viðbrögðum við þessu. „Telur hann að það sé réttlætanlegt að upplýsa ekki um söluverðið hjá þessum stórfyrirtækjum. Hér er um einkavæðingu að ræða og það er alveg ljóst að við munum sjá meira af þessu - því miður. Vegna þess að ríkisbankinn mun örugglega fá fleiri fyrirtæki upp í hendurnar," sagði Guðlaugur Þór.

Magnús Orri Schram sagði að vilji stæði til þess að endurbyggja trúna á viðskiptalífi og stjórnmálalífi. Atburðir síðustu daga, sem tengdust sölunni á Icelandic Group, sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem heyrðu undir Vestia, væru vonbrigði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×