Innlent

Statoil svarar engu um Drekasvæðið

Norska olíufélagið Statoil skilgreinir nú bæði Grænland og Færeyjar sem sitt nærsvæði í olíuleit en vill ekki upplýsa hvort það vilji bora á íslenska Drekasvæðinu.

Statoil er stærsta fyrirtæki á Norðurlöndum og lykillinn að olíuauði Noregs. Á fundi með norrænum fréttamönnum í Ósló á dögunum kom fram að félagið ætlar sér stóra hluti um allt Norður-Atlantshaf. Þannig hefur Statoil hafið olíuleit bæði við Færeyjar og Grænland. En hefur félagið líka áhuga á Jan Mayen-hryggnum og íslenska Drekasvæðinu?

Upplýsingafulltrúi Statoil, Jannik Lindbæk, segir of snemmt að segja neitt ákveðið um það.

"Við höfum alltaf áhuga á að meta ný svæði, einkum þar sem við höfum forsendur, þekkingu og tækni til að nýta auðlindir," svarar Lindbæk.

Statoil fann nýlega gríðarstóra olíulind í Barentshafi og telur mikilvægast að leita á fleiri svæðum á norska landgrunninu, ekki síst við Lófót og í Vesturál, en í Noregi er nú hart deilt um hvort leyfa eigi olíuleit þar. Talsmaður Statoil segir að framleiðslan á norska landgrunninu fari minnkandi því auðlindirnar þar séu byrjaðar að dala.

"Það er því mikilvægt að finna nýjar auðlindir sem auka verðmætasköpun sem tengist olíuiðnaðinum í Noregi," segir Jannik Lindbæk.

Íslensk stjórnvöld bjóða út olíuleit á Drekasvæðinu í annað sinn í haust. Það kom mörgum á óvart að Statoil skyldi ekki þátt í fyrsta Drekaútboði Íslendinga fyrir tveimur árum. Af hverju var Statoil ekki með?

Því vill upplýsingafulltrúi Statoil ekki svara. "Við gerum okkar athuganir og tökum ákvarðanir á grunni ítarlegra gagna. Ég get ekki farið nánar út í það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×