Innlent

Poppar upp hvunndaginn

Hópurinn hefur starfað við kvikmyndir á borð við Gauragang, Djúpið og Eldfjallið. Fréttablaðið/Valli
Hópurinn hefur starfað við kvikmyndir á borð við Gauragang, Djúpið og Eldfjallið. Fréttablaðið/Valli
Þegar Sveinbjörn Fjölnir Pétursson missti vinnuna sumarið 2008 fór hann strax að taka þátt í öllu sem í boði var fyrir atvinnuleitendur. Hann kom einnig fram í Kastljósi og fjallaði um málefni atvinnuleitenda, sem varð til að vekja athygli Spaugstofumanna á honum.

„Þeir hringdu og báðu mig að hóa saman hópi atvinnuleitenda sem gætu verið aukaleikarar í þáttunum," segir Sveinbjörn, en hópur 25 atvinnulausra starfaði með Spaugstofunni veturinn 2009 til 2010.

Þetta starf aukaleikaranna mæltist vel fyrir og fljótlega fóru fleiri að falast eftir kröftum þeirra. „Við höfum starfað við kvikmyndir á borð við Gauragang, Djúpið og Eldfjallið en tvær þeirra á eftir að frumsýna. Þá munum við líklega vera með í Svartur á leik," segir Sveinbjörn en hópurinn hefur einnig verið í Áramótaskaupinu, Hlemmavídeói, Tíma nornarinnar, Pressu 2 og Makalaus.

Aukaleikarastarfið gefur ekki mikið í aðra hönd enda er það ekki markmiðið með starfinu. „Í mínum huga snýst þetta um að vera virkur, kynnast fólki og taka þátt í skemmtilegum verkefnum," segir Sveinbjörn glaðlega og bætir við að atvinnuleitendur séu tilvaldir í hlutverk aukaleikenda þar sem þeir séu lausir á þeim tímum sem tökur fari fram.

„Ég lofaði fólki að við myndum ná langt og enda annaðhvort í Hollywood eða Bollywood," segir Sveinbjörn glettinn og telur drauminn ekki óraunhæfan. „Við munum til dæmis birtast í grein í New York Times Magazine á næstunni," upplýsir hann.

Í dag er Sveinbjörn með um 130 manns á skrá hjá sér. „Ég þyrfti hins vegar að vera með 300 til 400 á skrá til að vel ætti að vera," segir hann og auglýsir eftir fleiri atvinnuleitendum. Þeir sem hafa áhuga geta sent tölvupóst á aukaleikarar@gmail.com.

solveig@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×