Innlent

Vilja reisa aðra virkjun í Glerá

Orkufyrirtækið Fallorka vill byggja tveggja megavatta vatnsaflsvirkjun í Glerá í Glerárdal. Erindi þess efnis bíður afgreiðslu hjá Akureyrarbæ.

Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku, segir fyrirtækið hafa fengið nokkuð jákvæð viðbrögð. „Við teljum þetta býsna gott verkefni því það eru ekki mikil umhverfisáhrif, þetta er nálægt byggðinni og það stendur ekki til að gera stórt uppistöðulón."

„Þetta er náttúrulega lítil virkjun, en samt munar um hana fyrir notkunina á Akureyri. Þarna fengjust um fimmtán prósent af orkunotkun á Akureyri." Virkjunin yrði nær tvöföldun á orkuframleiðslu fyrirtækisins, sem rekur nú þegar tvær virkjanir í Eyjafirði.

Andri segir að kostnaðaráætlun hljóði upp á 430 milljónir króna og virkjunin virðist vera mjög hagkvæmur virkjunarkostur. „Ef þetta verður samþykkt tekur við nánari hönnun og útfærsla." Margra mánaða undirbúningsvinna tæki þá við.

Fallorka óskaði eftir því við bæinn þann 11. febrúar að tekin yrði afstaða til breytinga á aðal- og deiliskipulagi dalsins og hafin yrði vinna með það fyrir augum að fyrirtækinu yrði heimilað að reisa virkjunina. Bæjarráð frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum 17. febrúar.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×