Innlent

Stjórnlagaráð skili tillögum í lok júní

Stjórnlagaráð, sem fjalla á um skýrslu stjórnlaganefndar og leggja til breytingar á stjórnarskránni, á að skila Alþingi tillögum sínum í formi frumvarps fyrir lok júní.

Þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðsins var dreift á Alþingi í gær.

Flutningsmenn hennar eru þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir VG, Birgitta Jónsdóttir Hreyfingunni og Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingunni. Höskuldur Þór Þórhallsson Framsóknarflokki styður tillöguna en telur að framkvæmdarvaldið hefði átt að flytja hana.

Verkefni stjórnlagaráðsins eru þau sömu og stjórnlagaþinginu voru ætluð. Sú breyting hefur orðið að ráðið á sjálft að setja sér starfsreglur um skipulag og starfshætti. Stjórnlagaþingi voru settar nokkuð nákvæmar starfsreglur með lögum.

Þeim 25 sem efstir urðu í kosningu til stjórnlagaþings í nóvember verður boðin seta í stjórnlagaráðinu. Hafni einhverjir boðinu verður þeim sem næstir komu boðin seta. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×