Innlent

Boða aðgerðir vegna eldsneytishækkunar

Mun ríkið lækka eldsneytisgjöld til að mæta verðhækkunum?

Starfshópur fjármálaráðuneytis um viðbrögð við verðhækkunum á eldsneyti mun skila fyrstu tillögum sínum hinn 1. apríl næstkomandi. Það var ákveðið á fundi ríkisstjórnar í gær, en hann verður skipaður fulltrúum úr fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti.

Hópurinn mun kanna og meta verðþróun á eldsneyti og áhrif á þróun flutningskostnaðar og samgangna. Þá verður rýnt í hvernig auknar tekjur ríkissjóðs af eldsneyti megi nota til að niðurgreiða flutningskostnað, og almenningssamgöngur í samstarfi við sveitarfélög og efla hlut innlendra vistvænna orkugjafa.

Lokaskýrsla hópsins skal berast fyrir gerð næstu fjárlaga.

Eldsneytisverð er nú í sögulegu hámarki hér á landi þar sem bensínlítrinn er á um 227 krónur þar sem hann er dýrastur og lítrinn af dísilolíu er á tæpar 232 krónur. Síhækkandi heimsmarkaðsverð á olíu er stór áhrifavaldur, en einnig hefur verið deilt á álögur íslenska ríkisins. Rúmur helmingur af andvirði hvers bensínlítra sem seldur er rennur í ríkissjóð í formi skatta og gjalda, en þar munar sérstaklega um virðisaukaskatt sem leggst ofan á önnur gjöld og veldur þannig hlutfallshækkunum.

Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytis má rekja um 58 prósent hækkana á bensíni frá því í desember síðastliðnum til hækkana á sköttum og gjöldum. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði fjármálaráðherra á þingi á mánudag hvort mögulegt sé að gjöld verði lækkuð tímabundið til að vinna gegn hækkunum á eldsneytisverði.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svaraði því til að ekki væri hægt að gefa sér að hækkanirnar væru tímabundnar og því þyrfti að skoða málin í heild sinni með stofnun starfshópsins.

„Ég viðurkenni fúslega að haldi verðþróun á innkaupsverði af þessum toga áfram hlýtur að koma til greina að mæta því með einhverjum hætti því að það er ekki ætlunin að láta virðisaukaskatt leggjast ofan á endalaust hækkandi vöruverð.“ Ráðherra tók þó fram að opinberar álögur hér á landi væru síst minni hér á landi en annars staðar. Svíþjóð trónir þar á toppnum, en 57 prósent af andvirði hvers bensínlítra og 56 prósent af hverjum olíulítra renna í ríkissjóð í formi skatta. Þá hafi skattheimtuhlutfall hér á landi verið mun hærra á árum áður og náði hámarki árið 1999 þegar hlutfall skatta af útsöluverði nam 72 prósentum.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×