Innlent

Segir Árbótarmálið áfellisdóm

Ólöf nordal Ólöf gagnrýnir fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra harðlega vegna Árbótarmálsins. fréttablaðið/stefán
Ólöf nordal Ólöf gagnrýnir fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra harðlega vegna Árbótarmálsins. fréttablaðið/stefán
Ólöf Nordal, þingkona Sjálfstæðisflokks, segist ekki geta fundið dæmi um það að ráðherrar hafi fengið þvílíkar ávirðingar eins og er að finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Árbót.

Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að 30 milljóna króna greiðsla til rekstraraðila meðferðarheimilisins Árbótar í Aðaldal hefði verið órökstudd. Greiðslan var innt af hendi fyrir tilstuðlan Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Árna Páls Árnasonar, þáverandi félagsmálaráðherra. Umrætt meðferðarheimili var rekið í kjördæmi þess fyrrnefnda.

„Þetta er bara áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, því miður,“ segir Ólöf. Hún var málshefjandi þegar rætt var um málið á Alþingi síðastliðið haust.

Ólöf segir að menn hafi þá fullyrt að gagnrýnin á málsmeðferðina hafi verið sett fram án þess að gagnrýnendur hafi kynnt sér málið til hlítar. Skýrslan staðfesti hins vegar að gagnrýnin hafi átt við rök að styðjast. „Og málsmeðferðin var mjög slæm hjá þessum tveimur ráðherrum,“ segir Ólöf.- jhh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×