Innlent

Félagar í MC Iceland orðnir Vítisenglar

Átta félagar vélhjólaklúbbsins MC Iceland voru stöðvaðir á Gardemoen-flugvelli í Osló í gær og meinað að fara inn í landið. Þar hugðust þeir taka þátt í inntökuathöfn í samtökin Hells Angels, eða Vítisengla, sem veitt hafa MC Iceland formlega inngöngu í samtökin. Evrópska lögreglan, Europol, skilgreinir Vítisengla sem skipulögð glæpasamtök.

Norska lögreglan á Gardemoen segir rökstuddan grun um að Íslendingarnir hafi ætlað sér að taka þátt í glæpsamlegu athæfi þar í landi og því hafi þeim verið meinað að koma inn í landið. Lögreglan hafði þá í haldi fram á kvöld í gær en búist er við því að þeir yfirgefi landið í dag. Einar Ingi Marteinsson, formaður MC Iceland, hefur að sögn lögreglu kært brottvísunina.

MC Iceland bar áður nafnið Fáfnir en skipti um nafn í ágúst árið 2009 þegar klúbburinn varð opinber stuðningsaðili hinna alþjóðlegu Vítisengla. Síðan hefur klúbburinn beðið eftir formlegri inngöngu í samtökin, sem nú hefur verið veitt.

Fulltrúar erlendra Vítisenglasamtaka hafa margoft gert sér ferð til Íslands á undanförnum árum en iðulega verið meinuð innganga í landið, síðast í mars 2009.

Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði í viðtali við Stöð 2 í mars í fyrra að stjórnvöld myndu leysa upp félagsskap Vítisengla ef þeir stofnuðu félag á Íslandi en í álitsgerð sem unnin var fyrir ráðuneytið segir að stjórnvöld hafi heimild til þess.

Fréttablaðið fjallaði á fimmtudag um áhyggjur lögreglu af því að átök brytust út hér á landi milli vélhjólagengja. Nýlega voru stofnuð hér samtökin MC Black Pistons, sem eru stuðningssamtök vélhjólaklúbbsins Outlaws, eða Útlaga, en þeir og Vítisenglar hafa víða tekist á um yfirráð á sviðum skipulegrar glæpastarfsemi. Formaður MC Black Pistons er Jón Trausti Lúthersson, sem áður gegndi formannsembætti hjá Fáfni en hrökklaðist síðan úr klúbbnum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ræddi um skipulagða glæpastarfsemi á Alþingi á miðvikudag. Hann sagði allt benda til þess að hún færðist hér óðum í vöxt. Hann sagðist jafnframt sannfærður um að Íslendingar almennt vildu ekki slíka starfsemi og hún yrði ekki liðin.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×