Innlent

Engar veðsettar eignir seldar

Félag í eigu starfsmanna keypti rekstur og vörumerki Capacent í september eftir að Íslandsbanki gjaldfelldi erlent lán sem hvíldi á fyrirtækinu.
Fréttablaðið/arnþór
Félag í eigu starfsmanna keypti rekstur og vörumerki Capacent í september eftir að Íslandsbanki gjaldfelldi erlent lán sem hvíldi á fyrirtækinu. Fréttablaðið/arnþór
Capacent sendi í gær frá sér fréttatilkynningu í tilefni af frétt sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Þar kom fram að skiptastjóri GH1, sem áður hét Capacent, hefði óskað eftir því við efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra að hafin yrði rannsókn á sölu á rekstri og vörumerki Capacent í september. Þykir leika grunur á að veðsettar eignir hafi verið seldar án heimildar veðsala.

Í tilkynningunni frá Capacent segir að fullyrðingar skiptastjóra þess efnis að veðsettar eignir hafi verið seldar eigi sér ekki stoð og að forsvarsmenn fyrirtækisins íhugi að höfða meiðyrðamál vegna ítrekaðra yfirlýsinga skiptastjóra um lögbrot.

Jafnframt telur fyrirtækið mikilvægt að koma því á framfæri að kröfu skiptastjóra um lögbann á notkun nýrra eigenda á vörumerki Capacent, hafi verið hafnað hjá sýslumanni þar eð um gildan kaupsamning hafi verið að ræða. Hins vegar sé uppi ágreiningur um ákveðin atriði í tengslum við söluna sem forsvarsmenn Capacent treysti dómstólum til að úrskurða um.

Forsaga málsins er sú að félag í eigu starfsmanna keypti í september rekstur og vörumerki Capacent í kjölfar þess að ekki tókst að semja um niðurfellingu á erlendu láni sem hvíldi á fyrirtækinu. Hefðu starfsmenn ekki keypt reksturinn hefði Capacent ella farið í þrot og hætt störfum.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×