Innlent

Rúmir 4 milljarðar í lækna sem búa úti

sigurður guðmundsson
sigurður guðmundsson
Ríkið hefur greitt að minnsta kosti 4,3 milljarða króna í menntun íslenskra lækna sem nú búa og starfa erlendis. Árlegur kostnaður þess að mennta lækni hér á landi er 1,4 milljónir. Fullt læknanám tekur sex ár og hefur ríkið því borgað um 8,5 milljónir króna fyrir hvern fullmenntaðan lækni. Eru þessar tölur miðaðar við fjárlög ríkisins 2011 til Háskóla Íslands (HÍ), sem þó lækkuðu um 7 prósent frá árinu áður. Því má gera ráð fyrir að kostnaður við menntun lækna hafi áður verið hærri. Er hér einungis verið að tala um beint framlag ríkisins til læknanáms við HÍ, en ekki námslán og aðra framfærslu nema.

„Þetta er heilmikil fjárfesting sem búið er að setja í menntun þessara lækna, sem nýtist okkur ekki,“ segir Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ og fyrrverandi landlæknir. „Þess vegna er skoðun margra að við ættum að reyna að vinna í því að fá þetta fólk heim frekar en að mennta enn fleiri lækna. Við eigum að byggja betur í haginn fyrir þetta fólk.“

Rúmlega þúsund læknar eru nú starfandi hér á landi. Þriðjungur þeirra sem hafa útskrifast með almennt lækningaleyfi er búsettur erlendis, eða 509 manns. Margir eru að leggja stund á sérfræðinám og snúa líklega til Íslands að námi loknu. Í Svíþjóð búa til að mynda 298 af þessum 509 læknum og má það að einhverju leyti rekja til vinsælda landsins vegna námsframboðs.

Mikið hefur borið á því á síðustu árum að læknar ákveði að starfa erlendis áfram að námi loknu. Samkvæmt tölum frá Læknafélagi Íslands hafa rúmlega 10 prósent lækna flutt frá Íslandi á síðustu þremur árum.

Sigurður bendir einnig á að þótt laun lækna, sem eru mun lægri hér á landi en fyrir sambærileg störf í nágrannalöndunum, séu ofarlega á listanum þyrfti að bæta fjölmörg önnur atriði. Hann nefnir þar almennt vinnuskipulag og að læknar fái frekari tækifæri til þess að þróa og taka inn nýjungar.

„Ef við ætlum að ná einhverjum árangri þyrftu launakjörin að verða sambærilegri því sem læknar geta fengið annars staðar,“ segir hann. Þrátt fyrir þessa stöðu íslensku læknastéttarinnar hefur aðsókn í læknanám við HÍ ekki minnkað. Búist er við því að rúmlega 300 manns muni skrá sig í inntökupróf í ár, þar sem 48 munu komast áfram, líkt og síðustu ár. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×