Innlent

Reikna með 30 þúsund á klósettið

Sjálfvirkum gjaldhliðum verður komið fyrir við salerni á Hakinu á Þingvöllum í sumar. Fréttablaðið/GVA
Sjálfvirkum gjaldhliðum verður komið fyrir við salerni á Hakinu á Þingvöllum í sumar. Fréttablaðið/GVA
Tvö ný snyrtihús með átján salernum verða í sumar tekin í notkun á Hakinu á Þingvöllum. Átján ára og eldri þurfa að greiða tvö hundruð krónur fyrir afnot af salernunum.

Til þess að innheimta salernisgjaldið verða sett upp sérstök gjaldtökuhlið sem Þingvallanefnd hefur ákveðið að kaupa af fyrirtækinu Icelux. Hliðin eru sjálfvirk og munu taka við 50 króna og hundrað króna mynt. Þrátt fyrir að Þingvallanefnd hafi samþykkt gjaldtökuna á Hakinu mun áfram verða hægt að komast frítt á önnur salerni í þjóðgarðinum.

Hliðin frá Icelux kosta þrjár milljónir króna með uppsetningu á staðnum. Þingvallanefnd gerir ráð fyrir því að tekjur af þeim verði sex milljónir króna á ári miðað við að 30 þúsund manns greiði þjónustugjaldið.

„Þessi aðstaða uppfyllir ströngustu kröfur um umhverfisvernd og hreinsun fráveituvatns innan þjóðgarðsins og stórbætir þjónustu við gesti en eykur um leið rekstrarkostnað," segir Þingvallanefnd um þetta mál. -gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×