Innlent

Milljarður á ári til að efla samgöngur

Framkvæmdastjóri Strætó segir aukna fjárveitingu til almenningssamgangna efla starf Strætó til muna. Fréttablaðið/heiða
Framkvæmdastjóri Strætó segir aukna fjárveitingu til almenningssamgangna efla starf Strætó til muna. Fréttablaðið/heiða
Lagður verður til milljarður á ári næstu tíu ár til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess, gangi tillögur starfshóps á vegum samgönguráðs eftir.

Starfshópurinn hefur unnið að tillögum um endurbætur á grunnneti almenningssamgangna á suðvesturhorni landsins síðan í desember og voru þær lagðar fram á fundi innanríkisráðuneytisins í gærmorgun. Tillagan var samþykkt hjá skipulagsráði og hefur hún einnig fengið jákvæðan meðbyr hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra.

Verkefnið er til tíu ára og verður samstarf ríkis og sveitarfélaga. Lagt er til að það verði hluti af tólf ára samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í haust. Þorsteinn M. Hermannsson, formaður starfshópsins, segir viðbrögð sveitarfélaga á svæðinu hafa verið jákvæð.

„Það er verið að bjóða upp í dans. Þetta verður sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga,“ segir Þorsteinn. Markmiðið sé að í það minnsta tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess.

Tillaga starfshópsins var unnin í samstarfi við Strætó BS. Reynir Jónsson framkvæmdastjóri fagnar tillögunum og segir fjárveitinguna efla samgöngukerfið til muna. Ríkið muni með þessu koma með veglegum hætti inn í almenningssamgöngur, bæði með endurskoðun kerfisins á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

„Óráðið er hvernig aðgerðir sveitarfélaganna verði mótaðar og hvernig fjármunum verði ráðstafað,“ segir Reynir. „Hvort þetta fari allt í aukna strætóþjónustu eða áframhaldandi þróun og framboð á öðrum samgönguúrræðum á eftir að ákveða.“

Reynir segir þörfina á auknum almenningssamgöngum mesta á morgnana. Þá liggi beint við að auka við strætóflotann til að anna eftirspurn á meðan fólk er á leið í vinnu eða skóla. Á kvöldin og um helgar sé hins vegar nauðsynlegt að samnýta samgöngutæki betur og horfa til nágrannalanda okkar til þess að einkabílar og leigubílar verði ekki einu ferðamöguleikar Íslendinga á þessum tíma til frambúðar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×