Innlent

Sex varamenn fengu undanþágu

Helgi Bernódusson
Helgi Bernódusson
Sex varamenn fengu undanþágu frá almennum reglum til að taka sæti á þingi í gær, svo þingflokkar gætu verið fullmannaðir við atkvæðagreiðsluna um vantrauststillögu sjálfstæðismanna.

Aðalmennirnir sex eru í embættiserindum erlendis á vegum þingsins og halda því launum sínum þrátt fyrir að varamennirnir taki sæti. Varamennirnir munu hins vegar ekki sitja í tvær vikur eins og venja er, enda tæmist varamannaskráin í þinghléum og páskahlé þingsins hefst á föstudag.

„Þannig að það er enginn umtalsverður kostnaður sem hlýst af þessu,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. „Þetta er bara eitthvert smotterí.“

Helgi segir ekki algengt að þessu undanþáguákvæði í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað sé beitt. „En það er bara svo eðlilegt þegar tekist er á um vantraust. Þá vilja auðvitað allir flokkar hafa fullt hús. Vanalega þurfa menn til dæmis að vera átta þingdaga í burtu til að geta kallað inn varamenn en við þessar aðstæður er vikið frá þeirri reglu til að úrslit í svona atkvæðagreiðslu velti ekki á einhverjum flugferðum milli borga í Evrópu,“ segir Helgi.

Þrír tóku í fyrsta sinn sæti á þingi í gær; Helena Þ. Karlsdóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir, báðar úr Samfylkingunni, og Eva Magnúsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×