Innlent

Engir virkjanakostir eru óumdeildir

Stjórnarformaðurinn og forstjórinn. Mikilvægt er að ríkið móti sér stefnu um það hvað gera skuli við arðgreiðslurnar af rekstri Landsvirkjunar í framtíðinni, að sögn Harðar Arnarsonar forstjóra.Fréttablaðið/Stefán
Stjórnarformaðurinn og forstjórinn. Mikilvægt er að ríkið móti sér stefnu um það hvað gera skuli við arðgreiðslurnar af rekstri Landsvirkjunar í framtíðinni, að sögn Harðar Arnarsonar forstjóra.Fréttablaðið/Stefán
Landsvirkjun áætlar að reisa tíu vatnsfallsvirkjanir og fjórar jarðvarmavirkjanir fyrir 4,5 til fimm milljarða dala, jafnvirði tæpra 570 milljarða króna, á næstu fimmtán árum og auka raforkuframleiðsluna um ellefu teravattstundir. Við það mun raforkuframleiðsla Landsvirkjunar fara í um fjörutíu teravattstundir.

 

Fyrstu tíu árin mun raforkuframleiðsla Landsvirkjunar aukast um 7,3 teravattstundir. Það sem upp á vantar verður fengið með öðrum orkukostum á borð við virkjun sjávarfalla, vindorku og jarðvarma. Virkjanirnar verða meðal annars í neðrihluta Þjórsár, á Þeistareykjum og Hólmsá. Þá er á meðal virkjanakosta Búðarhálsvirkjun. Framkvæmdir við hana fóru á fullt í fyrra og er stefnt á að hún verði gangsett í lok árs 2013.

 

Uppbyggingin er liður í fimmtán ára áætlun sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar kynnti á ársfundi fyrirtækisins í gær. Hann sagði alla virkjanakosti umdeilda en taldi líkur á að sátt myndi nást um aukningu raforkuframleiðslu í á milli þrjátíu til fimmtíu teravattstunda. Á svipuðum nótum talaði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, sem sagði mikilvægt að þjóðin næði sátt í virkjanamálum.

 

Hörður benti á að þótt góður árangur hefði náðst í rekstri Landsvirkjunar væri fyrirtækið enn of skuldsett í samanburði við evrópsk orkufyrirtæki. Stefnt væri að því að greiða niður skuldir. Áætlun Landsvirkjunar um aukna arðsemi ætti stóran þátt í því.

 

Hörður sagði jafnframt að þegar uppbyggingu lýkur muni áhrif af arð- og skattheimtum hins opinbera af rekstri Landsvirkjunar verða sambærileg og áhrif olíugeirans á Noreg. Þær gætu numið á bilinu fjögur til átta prósent af landsframleiðslu á ári. Áhrifin af olíuiðnaðinum ytra nema sex prósentum af landsframleiðslu. Miðað við þetta gæti ríkissjóður fengið á bilinu sextíu til 120 milljarða króna í arð og skatta frá Landsvirkjun á ári hverju. Hæst fóru arðgreiðslur í tæpar níu hundruð milljónir króna árið 2008 en hafa engar verið síðastliðin tvö ár.

 

jonab@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Alþingi á ekki að skipta sér af rekstrinum

Ríkið verður að setja sér stefnu um það með hvaða hætti það eigi að fara með eigendavald sitt, að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur, stjórnarformanns Landsvirkjunar. Í ræðu sinni á ársfundinum sagði hún fyrirtæki í opinberri eiga að fá að starfa óhindrað á viðskiptalegum forsendum og án íhlutunar eigenda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×