Innlent

Ekkert nema ESB er í boði

Dr. Visnja Samardzija segir brýnt að íslensk stjórnvöld skapi samstöðu um aðildarviðræður og leysi deiluna við Breta og Hollendinga.
Dr. Visnja Samardzija segir brýnt að íslensk stjórnvöld skapi samstöðu um aðildarviðræður og leysi deiluna við Breta og Hollendinga. Mynd/Vilhelm
Þótt allt að helmingur Króata sé efins um Evrópusambandsaðild hefur lítið heyrst af öðrum kostum, segir dr. Visnja Samardzija, yfirmaður hjá Alþjóðamálastofnuninni í Zagreb, sem flutti erindi hjá Alþjóðamálastofnun Háskólans í gær. Hún segir króatíska aðildarandstæðinga benda á einstaka hluti gegn inngöngu, svo sem kröfur ESB um afnám ríkisstyrkja í skipaiðnaði og um heilnæmari landbúnaðarframleiðsluhætti en enginn breiðfylking andstæðinga hafi sýnt fram á möguleika landsins utan sambands.

 

„Króatía á engra kosta völ en að ganga í ESB því við erum lítið land og verðum að samræmast sambandinu. Þeir sem eru efins um ESB nefna hluti eins og hefðir. Bændur tala um hvernig þeir hafa alltaf selt kotasælu á markaði og að nú vilji ESB að þessari vöru verði skýlt [þannig að bakteríur komist ekki í hana]. Þetta er neytendum til hagsbóta en þessir framleiðendur mótmæla. Svo tala aðrar raddir um skert fullveldi og menningararfleifð okkar, en heilt yfir hafa ekki verið háværar raddir á móti," segir hún.

Ef Króatía gengi ekki inn þyrfti landið hvort sem er „að laga löggjöf sína alveg að lögum ESB og setja á fót Evrópusambandshæfar stofnanir. Það myndi virka eins og eyja sem er ekki hluti af ESB. En við hefðum engan hag af því og nytum engra styrkja," segir hún. Þetta væri ósjálfbær staða.

 

Króatar sóttu um aðild að ESB fyrir um átta árum, en hafa unnið að henni mun lengur. Dr. Samardzija var aðstoðarráðherra í Evrópusamrunaráðuneytinu um aldamótin og telur að vandi króatískra aðildarsinna sé skortur á almennri þekkingu á Evrópusambandinu. Þessu þurfi stjórnvöld að bæta úr svo fólk geti tekið upplýsta afstöðu.

 

Allir flokkar í Króatíu styðja inngöngu landsins, en almenningur sveiflast í afstöðu sinni. Samardzija kveður það áhugavert að þessu virðist öfugt farið á Íslandi, þar sem meiri andstaða við aðild hefur verið meðal stjórnmálaelítunnar.

 

Hún telur Ísland geta gengið inn fljótlega á eftir Króatíu, ef íslenskum stjórnvöldum tekst að leysa úr innri málum. Með því vísar hún til deilna um ferli[ innanlands og milliríkjadeilu við Breta og Hollendinga.

 

Slóvenar beittu neitunarvaldi á aðildarviðræður Króata vegna deilna um landamörk ríkjanna og frystu viðræðurnar í 13 mánuði. Þessar deilur drógu úr vilja Króata til aðildar. „Það er mjög mikilvægt að leysa tvíhliða vandamál því viðræður við ESB eru jú viðræður við aðildarríkin."

 

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×