Innlent

Sjúklingar og starfsmenn sýktir

Lungna- og lyflækningadeild á Landspítalanum er nú lokuð vegna nóróveirusýkingar. fréttablaðið/valli
Lungna- og lyflækningadeild á Landspítalanum er nú lokuð vegna nóróveirusýkingar. fréttablaðið/valli
Búið er að loka lyflækningadeildum á Landspítalanum í Fossvogi og Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna nóróveirusýkingar. Alls hafa tíu manns, sex sjúklingar og fjórir starfsmenn, greinst með sýkinguna á spítalanum á Akureyri, þar sem einnig var skipt upp hand- og bæklunardeild til að varna frekara smiti. Vikudagur greindi frá málinu.

 

Á Landspítalanum eru um átta sjúklingar og átta starfsmenn sýktir af nóróveiru. Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar, segir veiruna koma reglulega upp á veturna en þó sé ekki algengt að loka þurfi heilu deildunum til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu.

Nóróveira er viðvarandi yfir vetrarmánuðina hér á landi og orðin mjög algeng orsök fyrir sýkingum í meltingarvegi. Algengustu einkenni eru uppköst, ógleði og niðurgangur. Ása Atladóttir, hjúkrunarfræðingur á sóttvarnasviði landlæknisembættisins, segir mikilvægustu vörnina gegn sýkingunni vera handþvott og almennt hreinlæti.

 

„Sýkingin er mjög smitandi og þar sem er mjög stutt á milli fólks berst hún auðveldlega á milli,“ segir Ása. „Ein sýkt manneskja getur komið af stað faraldri.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×