Innlent

Fimm þúsund páskaegg við Perluna

Fréttablaðið býður lesendum sínum í tíu ára afmælisveislu í Perlunni í dag milli klukkan 13 og 16. Blaðið fagnar því um þessar mundir að 23. apríl eru tíu ára liðin frá útgáfu fyrsta tölublaðsins.

 

Af þessu tilefni verður efnt til stærstu páskaeggjaleitar Íslandssögunnar í Öskjuhlíðinni. Verður persónum úr þekktum ævintýrum komið fyrir á víð og dreif í nágrenni Perlunnar og eru heil fimm þúsund páskaegg í boði fyrir fundvísa. Utandyra verða einnig ýmis leiktæki og þrautabrautir.

 

Inni í Perlunni verður boðið upp á þriggja tíma skemmtidagskrá en fram koma Páll Óskar, Friðrik Dór, Skoppa og Skrítla, Vinir Sjonna, Pollapönk og leikhópurinn Lotta. Herlegheitin kynnir Fransína mús.

 

Starfsmenn blaðsins munu svo bjóða gestum upp á tíu metra langa afmælisköku, vöfflur, kaffi, heitt kakó, safa og súkkulaði.

 

Þá hefur í Perlunni verið sett upp sýning á minnisverðum ljósmyndum og forsíðum úr sögu Fréttablaðsins. Að lokinni afmælishátíðinni mun sýningin flytjast í Kringluna, þar sem hún mun standa í tvær vikur. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×