Innlent

Dæmdur fyrir að slá mann og skera á háls

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í fangelsi og til greiðslu miskabóta.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í fangelsi og til greiðslu miskabóta.
Rúmlega tvítugur karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fimmtán mánaða fangelsi, þar af tólf á skilorði, fyrir heiftarlega líkamsárás.

 

Maðurinn var ákærður fyrir að ráðast á annan mann í heimahúsi í Reykjavík, slá hann í höfuðið með bjórglasi og skera hann á háls með glerbroti. Fórnarlambið hlaut meðal annars tvo krosslaga, djúpa skurði sem náðu 15 til 20 sentimetra þvert yfir hálsinn.

 

Mennirnir höfðu hist á bar og farið þaðan saman heim til fórnarlambsins. Þar réðst hinn á húsráðandann, sló hann með bjórkönnu í ennið, svo hún brotnaði og skar hann svo á háls með glerbroti. Árásarmaðurinn hringdi að því búnu í unnustu sína, tjáði henni að hann hefði drepið mann og ætlaði að ganga í sjóinn. Hún hringdi þegar í lögreglu og tilkynnti um málið. Húsráðandinn lá nakinn að ofan og bjargarlaus á gólfinu þegar lögregla kom að honum. Hann reyndist vera með stóran tætingslegan skurð á hálsinum, sem mikið blæddi úr, þegar hlúð var að honum á slysadeild.

 

Mennirnir gátu litlu ljósi varpað á aðdraganda árásarinnar fyrir dómi, þar sem þeir höfðu verið mjög ölvaðir þegar hún átti sér stað, en dómurinn taldi sök árásarmannsins sannaða. Hann var dæmdur til að greiða húsráðandanum 400 þúsund krónur í miskabætur.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×