Innlent

Bað kærustunnar á bólakafi í Silfru

John skrifaði bón sína á spjald sem hann hafði með sér. Hér sýnir hann kærustunni það sem þar stóð. 
Mynd/héðinn þorkelsson
John skrifaði bón sína á spjald sem hann hafði með sér. Hér sýnir hann kærustunni það sem þar stóð. Mynd/héðinn þorkelsson
Með spjaldið góða John og Elin með spjaldið góða að lokinni köfuninni í Silfru. mynd/héðinn þorkelsson
Sænskur maður, John Kullvik, bað kærustu sinnar, Elinar Hedlund, í köfun í Silfru á Þingvöllum í gær. Parið er í fríi hér á landi og dvelur nú í Reykjavík.

Héðinn Ólafsson er eigandi köfunarskólans Kafarinn.is og var með parinu á Þingvöllum ásamt nafna sínum Héðni Þorkelssyni sem kafaði með parinu. „Hann sagði okkur áður en farið var í seinni köfunina þeirra að hann ætlaði að gera þetta,“ segir Héðinn. „Við vorum með myndavélina og hann vildi láta taka myndir af þessu. Við vissum þetta samt ekkert fyrr en þá. Þetta er nú í fyrsta skipti sem við lendum í því að einhver beri upp bónorð þarna niðri.“

Héðinn og félagar fara reglulega með ferðamenn í köfunarferðir. Héðinn segir að fólk láti sér detta ýmislegt í hug til að gera neðansjávar. Hann viti þó ekki til þess að bónorð hafi áður verið borið upp við þessar aðstæður á Íslandi.

Bónorðið var óhefðbundið að því leyti að hvorki er hægt að tala né setja upp hringa neðansjávar. John bað Elinar því með því að skrifa bónorðið niður á spjald. Hann spurði Elinu einfaldlega hvort hún vildi giftast sér. Elín svaraði játandi á spjaldið. Trúlofunin var svo innsigluð með kossi þegar köfuninni lauk. „Þau voru hæstánægð með þetta allt saman,“ segir Héðinn kafari. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×