Innlent

Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal áminnt

Verksmiðjan er gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulífið á Bíldudal. fréttablaðið/vilhelm
Verksmiðjan er gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulífið á Bíldudal. fréttablaðið/vilhelm
Umhverfisstofnun hefur ákveðið að áminna kalkþörungaverksmiðju Íslenska Kalkþörungafélagsins á Bíldudal til að ýta enn frekar á um umbætur í mengunarmálum hjá fyrirtækinu. Umhverfisstofnun hefur í allnokkurn tíma gert kröfur um úrbætur sem fyrirtækið hefur orðið við, til dæmis með bættum og breyttum mengunarvarnabúnaði. Þrátt fyrir það hefur ekki náðst stjórn á styrk ryks í útblæstri en í síðustu mælingu reyndist ryk vera rúmlega sjöfalt meira en starfsleyfi segir til um. Mörk fyrir styrk ryks í útblæstri eru 20 mg á normalrúmmetra en við síðustu mælingu mældist styrkur ryks 150 mg.

Auk áminningar gerir Umhverfisstofnun kröfu um að rekstraraðili setji upp fullnægjandi hreinsibúnað eða hafi gert aðrar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að ákvæði starfsleyfis séu uppfyllt fyrir 15. júní. Enn fremur skal rekstraraðili framkvæma mælingar á rykmagni eigi síðar en 1. júlí 2011 og senda niðurstöður þessara mælinga til Umhverfisstofnunar eins fljótt og unnt er en eigi síðar en 1. ágúst 2011. Umhverfisstofnun hefur bent fyrirtækinu á heimild til að leggja dagsektir á fyrirtækið, allt að 500 þúsund krónur á dag, sinni það ekki úrbótum innan gefins frests.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×