Innlent

Koma upp skilti fyrir puttalinga

Með því að standa við skiltið er gefið til kynna að viðkomandi vanti bílfar. Hversu mikið skal borga í bensínkostnað er gefið upp á skiltinu. mynd/leið ehf.
Með því að standa við skiltið er gefið til kynna að viðkomandi vanti bílfar. Hversu mikið skal borga í bensínkostnað er gefið upp á skiltinu. mynd/leið ehf.
Ný tegund þjónustuskilta hefur skotið upp kollinum skammt utan Bolungarvíkur og Súðavíkur, þar sem umferð fer hjá til Ísafjarðar. Skiltið er ætlað gangandi vegfarendum sem óska sér ferðar með bílum sem eiga leið fram hjá. Með því að standa við skiltið gefur fólk til kynna að það óski eftir fari.

Það eru samtökin Leið ehf. sem standa fyrir verkefninu. Jónas Guðmundsson formaður segist vonast til þess að Vegagerðin fái skiltið löggilt sem þjónustumerki svo hægt sé að koma þeim fyrir víðar um landið þar sem þörf er á.

„Hér eru engar almenningssamgöngur um helgar og eru menn þá algjörlega upp á eigin bíl komnir,“ segir Jónas. „Skilti sem þessi eru hreinlega öryggisatriði. Menn eiga þá frekar möguleika á því að komast leiðar sinnar án þess að þurfa að treysta á aðra.“

Tilraunin er gerð meðal annars vegna þess að kostnaður við rekstur bifreiða færist sífellt í aukana og talsverður fjárhagslegur ávinningur sé að því að samnýta ferðir. Þá sé einnig mikilvægt að huga að umhverfissjónarmiðum.

Gert er ráð fyrir því að sá sem þiggur far taki þátt í bensínkostnaði við aksturinn og miðað við er að farþegi sé orðinn 16 ára. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×