Innlent

Felldi risabjarndýr í veiðiferð í Kanada

Þórður sést hér lengst til hægri ásamt ferðafélögunum með 200 kílóa svartbjörn sem honum tókst að fella.
Þórður sést hér lengst til hægri ásamt ferðafélögunum með 200 kílóa svartbjörn sem honum tókst að fella.
Þórður Örn Kristjánsson hefur ekki látið heyrnarleysi aftra sér frá því að lifa lífinu. Hann varð fyrstur heyrnarlausra til að útskrifast með mastersgráðu frá Háskóla Íslands árið 2008 og stundar nú doktorsnám í líffræði við sama skóla. Líffræðiáhugi Þórðar nær hins vegar út fyrir kennslustofuna því hann hefur brennandi áhuga á veiði. Hann fór ásamt fjölskyldu sinni í sitt mesta ævintýri hingað til á dögunum þar sem honum tókst að fella 200 kílóa svartbjörn.

„Þessi veiði- og útivistaráhugi er algjörlega meðfæddur. Pabbi dröslaði mér með í allar sínar veiðiferðir þegar ég var yngri og mamma tók mig með í líffræðirannsóknir sínar þegar ég var smápatti. Ég hef því alltaf verið með annan fótinn úti í náttúrunni og líður hreinlega illa ef ég er fastur innan bæjar of lengi,“ segir Þórður, sem stundar bæði skot- og stangveiði af krafti.

Þórður varð þrítugur á árinu en auk þess varð Þórarinn bróðir hans tvítugur og Kristján faðir þeirra sextugur. Af þessu tilefni skelltu þeir sér til Kanada með Ásgeiri Heiðar leiðsögumanni og fóru á bjarnarveiðar, en með í för var frændi þeirra, Erling Valdimarsson.

„Þetta fór rólega af stað en pabba tókst svo að fella einn svartbjörn sem var í kringum 100 kíló. Þegar ekki nema klukkustund var eftir af veiðitímanum sá ég síðan skyndilega eina gríðarlega flotta skepnu,“ segir Þórður um ferðina og bætir við: „Það er ólýsanleg tilfinning að rekast á svona björn, setur allt adrenalínflæðið af stað enda stór dýr og færið stutt í skóginum. Ég hef aldrei titrað jafn mikið á veiðum og þegar dýrið kom í skotfæri. En mér tókst sem sagt að fella björninn, sem mældist yfir sex fet og var áætlaður 200 kíló.“

Þórður var heyrandi til sextán ára aldurs en missti þá heyrn á öðru eyranu eftir skurðaðgerð og svo á hinu átján ára. Hann þjáist af sjaldgæfum sjúkdómi sem myndar taugaæxli í líkama hans. Hann segir heyrnarleysið vitaskuld há sér en er ánægður með þann stuðning sem hann hefur fengið í námi sínu. Hann segist fá aðstoð túlka og nýtur jafnframt góðs af því að kennsluefni og fyrirlestrar eru fáanleg í tölvutæku formi.

„Aðalatriðið er samt auðvitað að ef að fólk leggur á sig að lesa, glósa og vinna verkefni þá gengur því vel,“ segir Þórður. Hann er hins vegar ekki jafn ánægður með Ríkissjónvarpið, sem hann gagnrýnir fyrir að texta ekki fréttatíma. „Þetta ætti að vera lítið mál en það er eins og vilji sé bara ekki til staðar og því eru heyrnarlausir hafðir úti í kuldanum þegar kemur að upplýsingagjöf,“ segir hann að lokum.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×