Innlent

Bætur vegna Álftaneslaugar

Miklar kostnaðarhækkanir urðu á framkvæmdatímanum.
Miklar kostnaðarhækkanir urðu á framkvæmdatímanum.
Eignarhaldsfélagið Fasteign hefur verið dæmt til þess að greiða Íslenskum aðalvertökum (ÍAV) skaða- og tafabætur, alls að upphæð 82 milljónir króna, vegna framkvæmda við Álftaneslaug. Í dómnum er tekið tillit til kostnaðarhækkana sem urðu á framkvæmdatímanum.

ÍAV áttu lægsta tilboðið í verkið, tæpar 604 milljónir króna. Á samningstímanum urðu miklar verðhækkanir og taldi verktakinn að forsendubrestur hefði orðið á samningnum. Hæstiréttur fellst á það, en tiltekur að brostnar forsendur geti ekki leitt til þess að krafa um hækkun verklauna verði tekin til greina.

Hins vegar var litið til þess að þrátt fyrir stórfelldar verðhækkanir á aðföngum og tafir hefði íAV lokið verkinu og efnt verksamninginn. Þá hefði Fasteign fengið til eignar og útleigu mannvirki sem hefðu verið mun dýrari en verksamningurinn hefði gert ráð fyrir.

Jóhannes Karl Sveinsson, rak málið fyrir hönd ÍAV. Hann segir að með dómnum hafi kostnaðarhækkunum verið skipt á milli verkkaupa og verktaka og það sé farsæl og sanngjörn lausn. Hann bendir á að Fasteign leigi mannvirkið á verði miðuðu við raunkostnað. Hann býst ekki við að dómurinn leiði af sér skriðu málaferla, en hann muni veita leiðsögn í nokkrum málum.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×