Innlent

Má ekki neita að staðfesta lög um fjármál

Stjórnlagaráð ræddi tillögur fyrir áfangaskjal um breytingar á stjórnarskránni á löngum fundi sínum í gær.
Stjórnlagaráð ræddi tillögur fyrir áfangaskjal um breytingar á stjórnarskránni á löngum fundi sínum í gær. Mynd/GVA
Forsetinn mætti ekki synja staðfestingar fjárlögum, skattalögum og lögum sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, samkvæmt annarri af tveimur tillögum Stjórnlagaráðs um málskotsrétt forsetans. B-nefnd ráðsins lagði meðal annars fram tvær tillögur um málskotsréttinn á fundi ráðsins í gær.

Samkvæmt fyrri tillögunni heldur 26. grein stjórnarskrárinnar, sú sem kveður á um málskotsréttinn, að mestu gildi sínu. Forsetinn heldur sjálfstæðum málskotsrétti en ekki í öllum málum. Þannig er gert ráð fyrir því að heimild til synjunar á staðfestingu laga eigi ekki við um „fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni, lög um ríkisborgararétt og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum“.

Í tillögunni fær forsetinn viku frest frá því að hann fær frumvarp í hendurnar til þess að ákveða hvort hann hyggst synja lögum eða staðfesta þau. Ákvörðun sína á forsetinn að tilkynna forseta Alþingis með rökstuðningi. Þótt hann staðfesti þau ekki verða þau að lögum en setja þarf þau í þjóðaratkvæðagreiðslu innan þriggja mánaða.

Hin tillagan gerir ráð fyrir því að í stað þess að forseti geti vísað lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu geti hann innan viku frá móttöku ákveðið að senda þau á ný til Alþingis, með rökstuddu áliti sínu. Á Alþingi verði lögin afgreidd á ný við eina umræðu. Ef þingið staðfestir lögin á ný fá þau gildi án staðfestingar forsetans.

Fulltrúar í Stjórnlagaráði höfðu skiptar skoðanir á tillögunum við umfjöllun í gær. Dögg Harðardóttir stakk til að mynda upp á því að báðir valkostirnir yrðu sameinaðir þannig að ef forseti neitaði að skrifa undir lög færu þau til þingsins, sem gæti breytt þeim og sent aftur til forseta. Ef þingið vildi ekki breyta þeim færu lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allar þrjár nefndir Stjórnlagaráðs lögðu fram tillögur í áfangaskjal um breytingar á stjórnarskránni á fundinum í gær, ýmist til kynningar eða afgreiðslu.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×