Innlent

Íslensk stjórnvöld treg til að fá álit EFTA-dómstólsins

Páll Hreinsson hæstaréttardómari hlýðir á Sven Norberg, fyrrverandi dómara bæði við EFTA-dómstólinn og Evrópudómstólinn, flytja erindi. Lengst til hægri er Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn, sem var fundarstjóri. Mynd/Jessica Theis, Blue Box Design
Páll Hreinsson hæstaréttardómari hlýðir á Sven Norberg, fyrrverandi dómara bæði við EFTA-dómstólinn og Evrópudómstólinn, flytja erindi. Lengst til hægri er Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn, sem var fundarstjóri. Mynd/Jessica Theis, Blue Box Design
„Svo virðist vera sem ríkislögmaður hafi haft þá óformlegu stefnu um nokkurt árabil að kæra hvern og einn úrskurð héraðsdómara um að vísa máli til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins,“ segir Skúli Magnússon, dómritari EFTA-dómstólsins í Lúxemborg.

Hann segir þessa stefnu vekja upp spurningar um afstöðu íslenska ríkisins til tilrauna einstaklinga og fyrirtækja til að fá mál sín lögð fyrir dómstólinn, sem hefur það hlutverk að skera úr um túlkun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

„Óneitanlega vaknar sú spurning hvort íslenska ríkið sé þá frekar andsnúið því að einstaklingar og fyrirtæki láti reyna á réttindi sín fyrir þessum dómstól. Ef svo er, ef það er rekin markviss stefna í þá átt að reyna að hindra eftir því sem kostur er að einstaklingar og fyrirtæki komist með sín mál fyrir EFTA-dómstólinn í gegnum íslenska dómstóla, þá er það mjög vafasamt gagnvart markmiðum EES-samningsins og skyldu aðildarríkjanna til þess aðhafast ekkert það sem teflir markmiðum samningsins í tvísýnu.“

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður segir embættið þó alls ekki hafa þá stefnu að kæra til Hæstaréttar alla úrskurði héraðsdómara um að leita skuli eftir áliti EFTA-dómstólsins.

„Við reynum að meta hvert mál fyrir sig, og þá jafnan í samvinnu við ráðuneytið því þetta eru oft sérhæfðar spurningar sem þarf að bera undir EFTA-dómstólinn,“ segir Einar Karl í samtali við Fréttablaðið. Það hafi bara orðið niðurstaðan eftir skoðun hvers máls að þau hafi flest verið borin undir Hæstarétt.

Áhyggjur dómara EFTA-dómstólsins og ýmissa fremstu fræðimanna heims á þessu sviði komu þó skýrt fram á ráðstefnu, sem EFTA-dómstóllinn efndi til í Lúxemborg þann 17. júní síðastliðinn.

Þar kom einnig fram, meðal annars í máli Páls Hreinssonar hæstaréttardómara, gagnrýni á Hæstarétt Íslands fyrir að hafa sýnt tregðu til að leita eftir ráðgefandi áliti dómstólsins.

„Páll Hreinsson, dómari við Hæstarétt Íslands, gagnrýndi eigin dómstól á ráðstefnunni,“ segir Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, í viðtali í dagblaðinu Liechtensteiner Vaterland. „Mál voru stöðvuð vegna þess að menn óttuðust að íslensk stjórnvöld myndu tapa málinu í Lúxemborg.“

Baudenbacher segir þetta brjóta í bága við 3. grein EES-samningsins, sem gerir aðildarríkjunum skylt að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að markmiðum samningsins verði náð fram. Sú skylda nær, að sögn Baudenbachers, einnig til æðstu dómstóla aðildarríkjanna.

„Við skulum hafa það í huga að EFTA-dómstóllinn er sá dómstóll gagnvart EFTA-ríkjunum sem fer með endanlegt úrskurðarvald um efnislegt inntak EES-samningsins,“ segir Skúli Magnússon dómritari í samtali við Fréttablaðið. „Ef innlendir dómstólar fara að skera úr vafamálum um túlkun EES-samningsins kemur upp sú hætta að þessar úrlausnir verði ekki réttar, þær verði ekki í samræmi við úrlausmnir EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins. Það þýðir að EES-rétturinn brotnar upp og einsleitni eða samræmd framkvæmd EES-réttar hjá aðildarríkjum EES skorti. Það þýðir þá einnig að einstaklingar og fyrirtæki fá ekki fullnustu þeirra réttinda sem þeir eiga. Þess vegna er þessi aðgangur einstaklinga og fyrirtækja í gegnum íslenska dómstóla til EFTA-dómstólsins svo mikilvægur.“

Í erindi sínu á ráðstefnunni fór Páll Hreinsson yfir þau fimmtán mál frá Íslandi, sem EFTA-dómstóllinn hefur fjallað um frá upphafi.

Þrettán þeirra hafa verið send til EFTA-dómstólsins eftir úrskurð þess efnis frá Héraðsdómi Reykjavíkur, en þar af höfðu sex viðkomu í Hæstarétti Íslands vegna þess að úrskurður Héraðsdóms var kærður þangað.

Einungis tvö þessara fimmtán mála hafa verið send til Lúxemborgar að frumkvæði Hæstaréttar, en aðrir dómstólar á Íslandi en þessir tveir, Hæstiréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa ekki séð ástæðu til að samþykkja að leitað yrði eftir áliti EFTA-dómstólsins í neinum málum, sem til þeirra kasta hafa komið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×