Innlent

722 einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins

Verið er að reisa nýja tvöfalda brú yfir Haffjarðará á Snæfellsnesi og verður hún tekin í notkun í haust. fréttablaðið/pjetur
Verið er að reisa nýja tvöfalda brú yfir Haffjarðará á Snæfellsnesi og verður hún tekin í notkun í haust. fréttablaðið/pjetur
Meirihluta brúa í þjóðvegakerfi landsins er enn einbreiður, en unnið er að fækkun þeirra samkvæmt umferðar-öryggisáætlun. Alls eru 1.206 brýr í þjóðvegakerfi landsins og af þeim eru 722 einbreiðar. Ef aðeins er litið til stofn- og tengivega eru 423 einbreiðar brýr á landinu.

Einar Magnús Magnússon, hjá Umferðarstofu, segir að þar á bæ hafi menn miklar áhyggjur af einbreiðum brúm. Í kynningarmyndbandi ætluðu erlendum ferðarmönnum er þeim sérstaklega bent á hætturnar samfara akstri um einbreiðar brýr.

„Það er ekkert launungarmál að menn hafa haft áhyggjur af þessu, enda eru einbreiðar brýr miklir slysavaldar,“ segir Einar. Hann segir svartbletti á vegakerfi landsins, þar sem flest slys verða, oftar en ekki í námunda við einbreiðar brýr.

Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, segir unnið að því að fækka einbreiðum brúm. Sérstaklega sé horft á brýr þar sem umferð er meiri og einnig minni brýr. Kostnaður aukist síðan eftir því sem brýrnar stækka. „Þegar herðir að í þjóðarbúskapnum dregur úr peningunum,“ segir Rögnvaldur.

Unnið er að tvöföldun brúarinnar yfir Haffjarðará á Snæfellsnesi og lýkur því verki í haust. Þá fékk Vegagerðin viðbótarfjárveitingu til að tvöfalda fjórar brýr á Vestfjörðum og hefjast framkvæmdir við þær í haust.

Rögnvaldur segir slysahættuna mikla við einbreiðar brýr og einnig séu þær margar hverjar orðnar mjög gamlar og því nauðsynlegt að endurnýja þær.

Í umferðaröryggisáætlun til ársins 2016 er stefnt að öruggari vegum og eyðingu svartbletta. Þeir eru skilgreindir sem staðir í vegakerfinu þar sem fjöldi slysa af líkum toga verður, til dæmis í kröppum beygjum, við vegamót eða einbreiðar brýr.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×