Innlent

Kjaradeila flugmanna í hnút

Aflýsa þurfti níu ferðum á vegum Icelandair í gær vegna yfirvinnubanns flugmanna. Fréttablaðið/Anton
Aflýsa þurfti níu ferðum á vegum Icelandair í gær vegna yfirvinnubanns flugmanna. Fréttablaðið/Anton
Engin lausn virðist vera í sjónmáli á kjaradeilu flugmanna við Icelandair. Sáttasemjari sleit fundi á laugardag þar sem of mikið þótti bera í milli og ekki er ljóst hvenær hist verður á ný. Töluvert rask hefur orðið á flugi um helgina.

„Við vonumst til þess að fá einhver ný útspil frá Icelandair. Það hefur ekkert breyst um helgina og enginn fundur verið boðaður. Þannig að þetta er bara í biðstöðu,“ segir Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði ekkert að frétta af deilunni í gær. „Þetta er bara í biðstöðu. Báðir aðilar að kalla eftir útspili frá hinum, eins og þetta er yfirleitt,“ sagði Guðjón.

Flugmenn hófu yfirvinnubann á föstudag. Níu flugum hjá Icelandair til og frá landinu var aflýst vegna þess í gær og í dag falla sex flug niður. Ekki eru fyrirséðar frekari truflanir á flugi næstu dagana, en farþegar eru hvattir til þess að fylgjast vel með, segir í tilkynningu frá Icelandair.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur sagt koma til greina að stöðva yfirvinnubannið með lagasetningu.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×