Innlent

Verður að auka verðmætasköpun í landinu

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
sigmundur davíð gunnlaugsson
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðuna í ríkisfjármálum slæma. Það sé grafalvarlegt að áætlanir um rekstur ríkisins á síðasta ári skuli ekki hafa náð fram að ganga, jafnvel þó þar spili innspýtingarútgjöld inn í.

„Staðreynd málsins er sú að um og yfir 100 milljarða halli er gríðarlegur. Þetta eru um 25 prósent af öllum tekjum ríkisins,“ segir Bjarni.

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn ætíð hafa talað fyrir þeirri stefnu að auka þyrfti tekjur ríkis-sjóðs til að loka fjárlagagatinu og standa undir velferðarkerfinu. Til þess þurfi að auka framleiðslu og verðmætasköpun. „Það er í því verkefni sem ríkistjórnin er að bregðast. Hún þarf að skapa fleiri atvinnutækifæri og grípa þau sem gefast.“

Bjarni segir að rætt hafi verið aftur og aftur um sömu framkvæmdirnar sem virðist aldrei komast á koppinn. „Síðan hefur ríkisstjórnin með áherslum sínum í skattamálum dregið kjark úr fjárfestum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að breyta verði lögum og reglum til að hvetja til fjárfestinga. Þá eigi að einfalda skattkerfið og halda því stöðugu þannig að menn viti að hverju þeir gangi. „Skuldir heimila og fyrirtækja eru svo miklar að stór hluti tekna fer í að standa undir þeim. Svigrúmið er því lítið. Svo bætist við að þetta eykur verðbólguna og verðtryggingin hækkar skuldirnar enn frekar.“

Hann segir hallann áhyggjuefni sem sýni að skattahækkunarstefna stjórnarinnar hafi ekki dugað. Landsframleiðsla hafi verið í sögulegu lágmarki í fyrra, 13%, en hún þurfi að vera um 20 prósent bara til að halda í horfinu.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×