Innlent

Fyrsta íslenska stjórnarskráin að fæðast

Frumvarpið var samþykkt samhljóða en sú var tíðin, segir Eiríkur Bergmann, að stjórnlagaráð var ekki svo samhljóða.
Frumvarpið var samþykkt samhljóða en sú var tíðin, segir Eiríkur Bergmann, að stjórnlagaráð var ekki svo samhljóða. Mynd/gva
Frumvarp að nýrri stjórnarskrá var samþykkt samhljóða á ráðsfundi stjórnlagaráðs í gær. Það verður síðan afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis á morgun.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur sem sæti á í stjórnlagaráði, segir mikilvægustu breytingarnar á stjórnskipulaginu vera þær að valdamiðjan verði flutt aftur til Alþingis frá ríkistjórn og að kveðið sé á um stóraukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Þá á hann við að samkvæmt frumvarpinu geta 10 prósent atkvæðisbærra manna sett löggjöf frá Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu og eins getur sami fjöldi komið fram með ný þingmál. Hann segir að líta megi svo á að fyrsta íslenska stjórnarskráin sé að líta dagsins ljós þar sem sú fyrri sé fengin í arf frá Dönum.

Hann segir ennfremur að vinnan hafi verið erfið. „Á vissum tímapunkti var ég meira að segja viss um að þetta væri allt fyrir bí,“ segir hann. „Reyndar tel ég að við höfum öll fengið þessa tilfinningu en gæfan var sú að við fengum hana ekki á sama tíma.“

Þegar búið var að kjósa um frumvarpið söng stjórnlagaráðið „Ísland ögrum skorið“. „Við vitum vel að Salvör Nordal er formaður stjórnlagaráðs en það er engum blöðum um það að fletta að Ómar Ragnarsson er formaður þjóðlagaráðs,“ segir Eiríkur kankvís að lokum.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×